<$BlogRSDUrl$>

hvad er malid... ......hvad er malet? - segðu mér allt.


fimmtudagur, maí 13, 2004

þetta fann ég á vísindavefnum og hafa margir verið ósammála um þessa tölfræði! 

Eru til nákvæmar tölur yfir hvað Hitler drap marga til samans?

Nei, ekki í tugum. Giska verður á tölurnar í stórum dráttum. Þannig viðurkenna sagnfræðingar almennt að nasistar stóðu fyrir drápi á um 6 milljónum Gyðinga. Einnig er talið að nasistar hafi látið drepa hátt í hálfa milljón sígauna. Dæmið verður erfiðara þegar kemur að þeim þjóðum sem nasistar drápu í stórum stíl sem voru einkum Pólverjar, Hvít-Rússar, Úkraínumenn og Rússar. Á að telja þá með sem féllu í bardögum eða létust vegna hungursneyðar í stríðinu?

Talið er að Pólverjum hafi fækkað um þrjár milljónir í stríðinu og sameiginlega talan fyrir sovésku þjóðirnar þrjár hafi verið um 20 milljónir. Við má bæta umtalsverðum fjölda á Balkanskaga: Ekki má gleyma þeim hundruðum þúsunda Þjóðverja sem nasistar komu fyrir kattarnef af því að þeim féll ekki alls kostar við þá.

Dr.Josef Mengele, sem gekk undir nafninu Engill dauðans, var læknir í illræmdum útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz í Póllandi í seinni heimstyrjöld. Nafn hans tengist fyrst og fremst óhugnanlegum illvirkjum sem hann framdi í nafni læknisfræðinnar. Ekki er hægt að kalla þær pyntingar sem hann lét fangana í Auschwitz ganga í gegnum læknisrannsóknir. Nær væri að kalla þær viðurstyggileg ofbeldisverk sem bera vitni um brjálsemi. Mörg þeirra fórnarlamba hans sem lifðu ofbeldisverkin af gátu greint frá tilraunum hans á þeim sjálfum og öðrum. Sá vitnisburður er nánast það eina sem vitað er um glæpi hans því að lítið sem ekkert hefur fundist um þær á blaði.

Josef Mengele fæddist í Þýskalandi árið 1911. Hann lagði stund á heimspeki í München og læknisfræði við háskólann í Frankfurt am Main. Hann hafði mikinn áhuga á ólíkum kynþáttum og í doktorsritgerð sinni fjallaði hann um muninn á neðra kjálkabeini manna af ólíkum kynþáttum.

Fljótlega eftir að hann lauk námi gekk hann til liðs við rannsóknarstofnun sem sérhæfði sig í að rannsaka tengsl erfðafræði og hreinleika kynþátta (e. Institute for Heredite Biology and Racial Hygiene) árið 1934. Í seinni heimstyrjöld var hann í SS-sveitum nasista í Frakklandi og Rússlandi. Árið 1943 skipaði yfirmaður SS-sveitanna, Heinrich Himmler, Mengele yfirlækni við Birkenau sem voru sérstakar útrýmingarbúðir nasista við Auschwitz.

Þegar Gyðingar og Sígaunar komu til Auschwitz með lestum, ákvað Mengele hverjir skyldu láta lífið og hverjir skyldu lifa. Fólkinu var skipt upp í þrjá hópa. Einn hópurinn var sendur til Birkenau þar sem fólkið lét lífið í gasklefum. Yfirleitt voru þetta konur og börn, gamalt fólk og veikburða, og því var sagt að það ætti að fara í sturtu og var látið afklæðast. En í stað vatns kom eiturgasið Zyklon-B úr sturtuhausunum. Birkenau-búðirnar voru svo stórar að þar var hægt var að deyða og brenna 20 þúsund manns á dag.

Þeir sem voru ekki sendir í gasklefana voru settir í þrælkunarbúðir. Þeir sem voru á einhvern hátt frábrugðnir öðrum, til dæmis óvenju litlir eða óvenju stórir, áttu það á hættu að verða tilraunadýr Mengeles. Mestan áhuga hafði hann þó á tvíburum á barnsaldri. Hann virtist telja að samanburðarrannsóknir á þeim gætu leitt í ljós einhverja erfðafræðilega leyndardóma . Talið er að Mengele og aðstoðarlæknar hans hafi gert tilraunir á um 3000 tvíburum. Af þeim komust um 200 lífs af.

Fórnarlömb Mengele hafa greint frá því að yfirleitt hafi dagurinn hafist á því að blóðprufur voru teknar úr tvíburunum. Oftast var þetta gert á hverjum degi og er talið að mörgum hafi blætt út. Mengele sagði sjálfur frá því að hann hafi reynt að breyta augnlit barna úr brúnum í bláan með því að sprauta efnum í augun á þeim. Ástæðu þess er að leita í sannfæringu nasista um yfirburði hins ljóshærða og bláeyga aríska kynstofns. Það þarf varla að taka fram að börnin sem fengu efnin í augun fengu sýkingu og urðu flest blind í kjölfarið.

Fórnarlömbin greina frá því að tvíburarnir hafi verið sprautaðir með alls kyns bakteríum eins og taugaveiki og berklum til að sjá hverjar afleiðingarnar yrðu. Einnig að sumir hafi verið frystir til bana en aðrir settir í þrýstiklefa til að sjá hvernig þeim reiddi af. Sagt er að Mengele hafi einnig framkvæmt aðgerðir án deyfilyfja. Vitni segjast hafa séð hann nema líffæri á brott og saga af útlimi án svæfingar og deyfilyfja. Hann er sagður hafa gelt karlmenn með svipuðum aðferðum. Fáir sem lentu í þessum aðgerðum Mengeles lifðu þær af. Líkin voru krufin í þeim tilgangi að leita upplýsinga sem gætu leitt til þess að hinn aríski kynstofn mundi stækka og eflast.

Ofbeldisverk Mengeles voru miklu, miklu fleiri en þau sem rakin hafa verið hér.

Honum tókst þó að halda tilraunum sínum leyndum og enn þann dag í dag hvílir yfir þeim leyndardómur. Flest það sem Mengele skrifaði niður um tilraunir sínar var sent til Dr. von Verschner við Háskólann í Frankfurt en hann eyðilagði þessi gögn. Talið er að Mengele hafi tekið einhverja pappíra með sér þegar hann flúði til Suður-Ameríku eftir að Þjóðverjar töpuðu stríðinu. Ekkert af þeim plöggum hafa þó fundist svo að vitað sé.

Josef Mengele var einn af fjölmörgum nasistum sem voru eftirlýstir fyrir stríðsglæpi eftir stríðið en fundust aldrei. Talið er að hann hafi flust í sífellu milli staða í Suður-Ameríku í 30 ár til að forðast handtöku. Hann dó úr heilablóðfalli í Brasilíu árið 1979.

Perma | asa | fimmtudagur, maí 13, 2004 |

This page is powered by Blogger. Isn't yours?